<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Ég geng eftir gangi.
Gangurinn er of þröngur til að tveir menn geti gengið eftir honum samsíða, þannig að ég geng einn. Það eru engar afgerandi beygjur á ganginum, samt sé ég ekkert greinilega fram fyrir mig né úr áttinni sem ég kem úr.
Áfram rölti ég, mér finnst eins og ég ætti að hlaupa en ég labba bara, og finnst ég fara hægar og hægar með hverju skrefinu. Þrekið er að dvína, enda engin gulrót í sjónmáli, ekkert sem hjálpar mér við að arka lengra, ekkert við sjóndeildarhringinn sem ég get stefnt að.

Ég veit að á enda gangsins er hurð, og ég veit líka að hinum megin við dyrnar er annar gangur, en hann skiptir ekki máli núna. Þessi hurð eru stirð, það er erfitt að opna hana, og ég veit ekki hvort ég hafi þrek til þess að ljúka henni upp þegar að því kemur.

Til eru aðrir sem ganga þennan gang. Þeir ganga líka einir, en margir þeirra sjá dyrnar við enda gangsins, og flestir sjá allt það sem er að baki þeim fjarlægjast. Ég er bara ekki einn af þeim.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?