<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 01, 2007

Vá, hvar á ég að byrja?


Það er orðinn dágóður tími síðan ég skrifaði síðast. Síðan þá hefur eitt og annað gerst, þó mér finnist í raun engar grundvallarbreytingar hafa átt sér stað.


Ég flutti, fór til útlanda, fékk tvo nýja meðleigjendur, féll í prófi, náði öðru, fór til útlanda og hellti mér á kaf í rannsóknarverkefni.


Rannsóknarverkefnið felst í að kanna algengi verkja eftir aðgerðir, og geri það með því að leggja spurningar fyrir fólk stuttu eftir að það hefir lagzt undir hnífinn. Þessi vinna er framkvæmd á LSH Fossvogi (eða Borgarspítalanum), sem er því orðinn mitt annað heimili.


Ég flutti úr íbúðinni á Flyðrugrandanum og í nýtt hús að Einarsnesi, rétt við flugvöllinn, og kann alveg þokkalega við það þó heimilisbragurinn sé ennþá í vinnslu.


Með mér leigja Gunni, kenndur við Skollatungu, og Mundi, sem er bara yfirleitt kenndur.


Útlandaferðin byrjaði í Kanada og endaði á Kúbu, þar sem ég kynntist aðstæðum lítillega, og veit ekki ennþá hvernig ég á að lýsa landinu. Ferðin var hins vegar frábær og mjög eftirminnileg, og ég kom heim aðeins minna hvítur og aðeins meira feitur!


Í sumar tekur við próf, þar sem ég klúðraði lyfjafræðinni; þar fyrir utan verð ég ritari á LSH Fossvogi og gestur á Hróarskeldu.


Í raun liggur mér nákvæmlega ekkert á hjarta sem ég ætla að deila með ykkur, lesendur góðir, svo að þetta verður bara hrein dagbókarfærsla; þurrari en sólskinsdagur í sahara.


Ef það sér einhver þessa færslu verð ég að taka það fram að ég dáist að þér fyrir að þrjóskast við að kíkja hingað á bloggið :)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?