<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Veikur, kvefpestarógeð

Það er óþolandi að verða veikur.

Þegar maður hefur planað skemmtilega viðburði, og þeir verða að engu vegna þess að ónæmiskerfið beilar á manni.

Já, gott fólk, veirur og sýklar hrella okkur flest endrum og eins, og er vel flestum illa við þennan andskota.

Núna ligg ég bara fyrir að ósk öldunganna, og reyni að sparka þessu helvíti úr kerfinu án þess að slá niður.

Bið að heilsa öllum sem mér er vel við í samfélagi siðaðra manna.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Stúdering á undrum kvenþjóðarinnar; partur 1.

Kvöldförðun.

Yndislegt fyrirbæri. Gerir stelpur sem eru bara venjulegar frekar frambærilegar og fallegar stelpur verða guðdómlegar... í lítilli birtu.

Sem er gott mál, enda er oftast ekki mikil og góð lýsing á kvöldin, nema þegar myndir eru teknar á myndavél sem búin er flassi (í. leifturljós, leifturlampi).

Þá lítur þetta út eins og viðkomandi snót hafi farið í ljósabekk en skellt á sig zorrogrímunni áður en ósköpin hófust.

Gaman að þessu.

Góður vinur bað mig um að henda inn orðskýringu á hugtaki sem ég nota stundum.


Að púlla Tarzan:

Þegar strákur/stelpa hoppar strax úr einu sambandi í annað, svona eins og þegar Tarzan sveiflar sér um í skóginum, og er ekki fyrr búinn að sleppa einni grein/reipi/fléttur/hvaðsemþettaer en hann er búinn að grípa aðra.

Þetta var hugtak dagsins.

mánudagur, janúar 09, 2006

Ef ég hefði strengt nýársheit....

hefði eitt þeirra verið að reyna að tengjast bekknum meira. Þessir krakkar eru margir hverjir alveg frábærir, en ég hef verið voðalega latur við það að blanda geði, og þeir þekkja mig sennilega flestir jafn lítið og ég þekki þá.
Þannig er það nefnilega að þegar ég þarf að synda á móti straumi með einhverjum hætti, geri ég yfirleitt einhverjar félagslegar tilslakanir.
Þær koma sennilega verst niður á því að hitta nýtt fólk, eða kynnast fólki betur sem maður þekkir lítið.
Maður hefur svosem mætt í partýin, en ég hef ekki mikið haft mig í frammi. Þetta er rosalega leiðinlegt far til að sökkva í, og mikill vítahringur, af því að því lengur sem ég læt þetta viðgangast einangrast ég meira.

Síðast þegar ég lenti í þessu náði ég að rífa mig upp úr þessu að mestu, en það kostaði mig samt það að enn eru margir sem halda að ég sé hrokagikkur hinn mesti.
Feimni, og það að höndla ekki alveg mannleg samskipti, er nefnilega stundum ranglega merkt sem hroki.

Mér er ekki sama hvað fólki finnst um mig, þó ég taki kannski ekki hvað sem er inn á mig. Það er sérstaklega vont að vera ranglega sakaður um eitthvað sem er jafn óeftirsóknarvert og það að telja sig vera betri en aðrir.

Ef það er einhver sem les bloggið og hefur lent í því að ég virðist hunsa frekari samskipti við hann/hana, skal það tekið fram að ég tel mig ekki vera betri en neinn.
Það hef ég í raun aldrei gert.
Ég á það bara til að lokast félagslega á ólíklegustu tímum, vegna furðulegra ástæðna og manneskjur úr öllum áttum.

Þarna var hellt aðeins úr innstu hugarfylgsnum.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Hæ krakkar!

Ég fékk tilfinningu óþreyju í magann áðan, tilfinninguna sem maður fær þegar maður þarf að koma einhverju frá sér. Þetta er tilfinningin sem varð til þess að ég byrjaði að blogga, og ég hef ekki fundið fyrir henni svo mánuðum skiptir. Upptendraður af koffíni sest ég fyrir framan tölvuna og klára að spila leikinn sem hefur gengið á blogginu í u.þ.b. mánuð, með afbragðsgóðum viðtökum. Eftir leikinn fer ég hérna inn á bloggerinn. Skelli titil upp og bíð eftir að ég finni hvað ég ætlaði að skrifa um. Ekkert gerist.
Andagiftin er til staðar, þessi drífandi kraftur sem lætur ekki segjast, en viðfangsefnin eru í feluleik, og ég er hann, og finn engan.

Ég ætla samt að koma með fullyrðingu; Þó að það líði langur tími á milli færslna, og þær séu misgóðar og misauðlesnar, þá deyr þetta blogg ekki strax. Ekki á meðan ég fæ þessa tilfinningu við og við.

Bless í bili, sé ykkur bráðlega.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?