<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 30, 2004

Mjáh, bætti líka Kalla frænda inn á Linkalistann minn. Hann er nýbyrjaður í blogginu í þessari atrennu, en ef eitthvað er að marka fyrri verk hans í netheimum verður þetta eitthvað sem verður þrælmerkilegt að fylgjast með í náinni framtíð.

Lög næturinnar eru Natural Disaster með Muse og Meant To Live með Switchfoot.

Góða nótt.

Hvað tala ég ekki um?

Sjónvarpsþættir og söguþráður þeirra
Tilhugalífið
Hvað ég borðaði í morgunmat
Fatakaup eða skortur á þeim
Málefni sem ég tel mig ekki vita nóg um
Hlutir sem ég tel að enginn hafi áhuga á að lesa (afar teygjanlegt hugtak!)
Sjálfsmeðaumkun fram úr hófi

Þetta hefur verið óopinberi listinn hingað til, en þar sem hann er ekki opinber eða þinglýstur í viðurvist votta er ég ekki bundinn af því, og get farið að tala um hafragrautinn minn eða nýju sokkana hvenær sem er.

Ég verð samt að benda á það að þetta er listi um það sem ég hef ekki planað að skrifa um, ég sé ekkert að því að aðrir skrifi um þessi málefni og les blogg um slíkt oftar en ekki, og hef gaman að.

Góðar stundir.


mánudagur, apríl 26, 2004

MMM... sveitin...

Loksins kemst ég á netið eftir útlegð í sveitinni!

ég kíkti í kurteisisheimsókn norður á krók um helgina. Mamma og pabbi tóku okkur sólveigu opnum örmum, en það virðist hafa verið af öðrum ástæðum en hreinni gestrisni og manngæsku, sem þau hafa þó til að bera (síðasti setningarhluti var til þess eins fallinn að komast hjá því að mér verði afneitað og seldur úr landi), heldur vantaði þau vinnuafl til þess að sjá um skítverkin á nýja ættaróðalinu.

Tala ég um skítverk út af skrúðmælgi og orðagjálfri? Nehei. Það vantaði einhvern til þess að stinga út úr fjárhúsunum, og það er ekkert fallegt eða vellyktandi sem verið er að stinga út.

Það eru mörg hundruð kíló af skít.

Þetta var samt ekki eins hræðilegt og við var að búast, það var furðulega þægilegt og stresslosandi að fá að púla ærlega. Foreldrar mínir gerðu líka vel við mig og borgarbarnið og buðu upp á steik og bjór, sem var kærkomið eftir skítadjobbið.

Það var svosem ekkert meira gert í sveitinni í þetta skiptið, tékkaði aðeins á vinunum en ekki nóg.

Ætli vikan verði ekki dæmigerð, lyftingar, vinna og svakalegheit alla daga, og síðan næ ég vonandi að kíkja á siðfræðina í túlkun villa árna.

Þarf líka að fara að tékka á palla, helvítis kommúnistanum. Hann kann allavega að elda.


Endilega tékkiði á Bones & Joints og Stay and Drown með bandinu Finger Eleven.


mánudagur, apríl 19, 2004

Á föstudaginn fór ég í próf.

Miðað við hvernig mér hefur gengið í prófum undanfarna mánuði voru væntingar manna til mín ekki sérlega háar, því ég hef sannast sagna verið algjörlega glataður í náminu það sem af er skólaársins

Ég var búinn að læra svona temmilega mikið fyrir þetta, ætlaði að vera skrilljón sinnum duglegri, en það komu upp ýmis mál sem settu strik í reikninginn.

Til dæmis má nefna veikindi þau er áður hafa verið rædd á síðu þessari, með tilheyrandi slappleika.

Sannleikurinn er sá að veikindin eru afsökun fremur en ástæða, ég var bara andskotanum ekki nógu duglegur að lesa!

Áður en ég fer að hræða ykkur eitthvað að ráði langar mig að leyfa ykkur að vita hvernig prófskrattinn gekk svo.

Ég rústaði þessu, massaði það, slátraði því, gekk bara nokkuð þolanlega og er almennt tiltölulega sáttur!
Ákvað fyrir prófið að lesa yfir gömul próf úr sama áfanga, og það skilaði frábærum niðurstöðum að viðhafa slíkt athæfi. Þessu hef ég alltaf verið á móti út af einhverjum heimskum prinsippmálum sem ég hef verið iðinn að tala um, en líklega hef ég bara verið of hræddur við gömul próf, hræddur við að þau myndu draga kjark úr mér eða baka mér kvíða og vandræði.

Þar með hef ég líklegast lokið langri þrautagöngu hrakfara og ófara, mistaka og handvammar.
Oft var ég nálægt því að gefast upp, en tel mig ekki hafa gert það þó að ég ætli aftur á fyrsta árið.
Mér finnst ég loksins vera on top of things..


Kannski ímynda ég mér bara að mér hafi gengið vel og er skít, skítfallinn.

Annað eins hefur nú gerst.




miðvikudagur, apríl 14, 2004

Þetta er ný færsla í bloggi Þorbjörns/Þorbjarnar.

Ennþá hálf slappur og under the weather.. ugh.. annar hálskirtillinn minn er orðinn stærri en egóið hans Kalla Bjarna!
Umræddur tonsill og næsta nágrenni hans er dökkrautt og hvítflekkótt, þrútið og ofvaxið. úfurinn er farinn að líkjast blóðugri, illa skapaðri keilu.

(Vona að þið tékkið ekki á bloggum fyrir matartímann!)

Annars er lítið að frétta, dagarnir hafa undanfarið bara verið notaðir í vinnu, sálarfræðilestur, svefn og drykkju á hunangs- og sítrónutei (sem virkar, þýðir það að ég verð að hætta að bölva skottulæknum?) og leti hvers konar.

Í dag ætla ég að vera liðtækur í sálfræðilestri - eða að skreppa "aðeins" í litla leikjatölvuskrattann.

Veðja á kost númer tvö, þó að númer eitt eigi alveg séns með liðveislu samviskunnar, skynseminnar og sífri Hjartar um að lesa meira og drolla minna.

Thunderstruck með AC/DC og Parasite með Dom & Roland (formælingar ykkar bíta ekki á mig varðandi það lag!) eru málið í dag.


laugardagur, apríl 10, 2004

Ööööööhhhhh...

Úldinn, slappur, andfúll og ógeðslegur...

Ég er orðinn veikur.

Var í vinnu í gær á Shellaranum, og var strax þá orðinn þrælslappur og slefandi viðbjóðslegur. Lifði samt stutta vaktina af og kom mér í bælið, enda fullur vinnudagur samkvæmt mínum heimildum í dag.

Hafði mig á lappir á endanum, og mætti.

Opinberun: ég átti ekkert að mæta. Stoppaði þó við í nokkra klukkutíma og gerði mér það til dundurs að færa kassa og afhenda síma og myndavélar, allt það sem stafrænt telst og kostar fleiri bláa seðla en huggulegt er.

Var orðinn dragúldinn þegar ég hafði mig heim, svaf í marga tíma og vaknaði. Shite, ennþá slappur. Í stað þess að fá mér nokkra svala á kjentinum með kærustunni er planið að sitja yfir video með kærustunni, snakki, pillufóðri og kleenex-pakka.

Samúðarkveðjur mér til handa frá.. mér

Hlustið á House of the Rising Sun í flutningi Pink Floyd, og hvað sem þið náið í með kvikmyndatónskáldinu Danny Elfman.




föstudagur, apríl 09, 2004

Afrekasögur af kallinum fyrir norðan!

Nei, ekkert gerðist.. eina sem ég hafði fyrir stafni var extensívt videogláp, bílaþvottur og smá grúsk í nýja ættaróðalinu í Skagafirði. Ekkert djamm, ekkert að hitta strákana, ekkert farið að sprikla.. bara 3 dagar horfnir í dútl.


Jábbs...



Kom heim að norðan á miðvikudaginn, í tilefni afmælis Sólveigu, kærustu minnar.
Samkvæmt hennar beiðni skulum við bara segja að hún sé orðin 18 ára...

Um kvöldið var ég skrifaður á fáránlega busy næturvakt á shell bústaðavegi, alltaf gaman að díla við ölæðinga á virkum dögum... var meðal annars beðinn um að brúka dönskuna við viðskiptavin (íslending) sem neitaði að tjá sig á okkar ástkæra ylhýra.

Við tók dagur leti og lágdeyðu, sem endaði um miðnætti. Fór þó í mat til Garðars Steins félaga, sem eldaði indverskt Vindaloo með öllu, eins og napalm á bragðlaukana! Mæli með því fyrir alla nagla sem langar að prófa eitthvað gott.

Föstudagurinn langi var planaður í massívan lærdóm en nei, hvað gerist, hef ég ekki náð mér í flensu!

Opnaði þó sálarfræðibókina nokkrum sinnum og lokaði til skiptis, ásamt því að lofa mér á stórhátíðarvakt á Bústaðarvegi í kveld, maður hatar ekki saltið í grautinn!

Síðan er það páskaegg nr7 sem ég ætla að maula næstu daga (sólveig splæsti, ég held að hún sé eitthvað skyld norn í frægu ævintýri, af hverju ætti hún annars að kalla mig Hans?) og vinna á morgun.

Læt þetta nægja í bili, í millitíðinni skuluð þið hlusta á In My Arms og Despite the Tears, með Jeff Buckley.


þriðjudagur, apríl 06, 2004

Bætti við á Tenglalistann, látið vita ef ykkur finnst eitthvað vanta á hann.


Loksins get ég sagt fréttir!

Fullt fullt að frétta af mér.
Eins og áður hefur komið fram hef ég ákveðið að taka fyrsta árið í læknisfræðinni tvisvar, og er þess vegna bara í tveimur áföngum eins og er, ætla frekar að massa þá tvo heldur en falla rétt svo í öllu.

Í framhaldi af þessu ákvað ég að fara í atvinnuleit, svona rétt fyrir salti í grautinn.

Eins og staðan er í dag er ég kominn í tvær vinnur, sem ætti að vera nóg fyrir mánaðarlegum útgjöldum, lítið meira en það.

Vinnustaðirnir eru þá Select Bústaðavegi og Elkó í Skeifunni, og er óhætt að segja að þetta sé stórgott vinnuumhverfi á báðum stöðum og kemur til greina fyrir mig að sækja um sumarvinnu hjá öðru hvoru fyrirtækinu.

Annars er lítið að frétta, sit hérna á Sauðárkróki í mestu makindum, er að forðast sálarfræðibókina eins og heitan eldinn, veltandi því fyrir mér hvernig ég á að plástra saman innréttingunni í Bensinum og skjalfesta hugmyndir á Alnetið.

Það er skemmtilegra að blogga en að lesa sálarfræði.

Meðmæli dagsins fyrir val á tónlist eru Child in Time með Deep Purple og Eleanor Rigby með The Beatles.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?