<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Tímamorð...

Uppþembdur af kaffi og fullur af lífsorku sit ég við bækurnar, ennþá, og strita við að meðtaka eitthvað af ólífrænni efnafræðinni.
Það er þó ekki brennandi áhugi sem knýr mig áfram, heldur pirringur.

Ég er orðinn pirraður á þessu fagi, pirraður á bókinni, pirraður á dæmunum og pirraður á því að vera á eftir áætlun. Ég er ekki að standast þær kröfur um árangur sem ég geri til sjálfs mín varðandi heimalærdóm, og það gerir mig pirraðan.

Þennan pirring má líklegast skrifa á það að ég er hræddur. Ég veit að ég þarf að gera meira en að mæta í próf til að ná prófum í læknisfræði, ég þarf að leggja mikla vinnu í það að meðtaka efnið til að komast áfram í þessum frumskógi.
Ég er hræddur við að falla, hræddur við að vera sparkað úr deildinni, hræddur við að ná ekki þeim markmiðum sem ég set mér.

Mig langar að verða læknir, og eins og er er það óttinn við að falla, gamla helvítis tapsárnin, sem er að halda mér á floti, reka mig ofan í bækurnar.

Það skemmir alls ekki fyrir að eiga góða að sem styðja mig í þessu meinlætalífi sem námið er, ég gæti þetta líklega ekki án þeirra.

Fokk, ein og hálf vika búin af önninni og ég er orðinn gráhærður á þessu!

Spurning um að fara að mastera jóga til að halda sér réttu megin við strikið?

Hiyah!

Lesturinn gengur framar vonum, erum búnir að vera að lesa frá 8-8 alla virka daga og gluggum í bók um helgar. Ég get þó ekki sagt að ég sé einhver sérlegur vinnuþjarkur, enda jafnast athyglisspan mitt á við gullfisk í hringlaga fiskabúri.

-Mmhm.. entalpí vetnisperoxíðs er.. hei, skrítið rykkorn!... og mólafjöldi í 45 grömmum af... hmmm.. ætli það sé ekki eitthvað á [einhver vefsíða] sem ég á eftir að skoða?

Þó ótrúlegt megi virðast er samt einhver skriður á þessu hjá mér, enda stóð ég mig þokkalega á fyrsta skyndiprófi og ætla að halda dampi út önnina/árið/námsferilinn.

Síðan er ég kominn í heilsuátak... aftur... og nú er ekkert nammi og ekkert gos og ekkert snakk á virkum dögum. Einnig á ég að mæta minnst þrisvar í viku í Hreyfingu.
Það sem gerir þetta átak merkilegt er að þetta er það lengsta sem ég hef haldið út í einhverju sem er svona fyrirfram skipulagt, eða 1 1/2 viku! ég vil þakka... hvern er ég að plata, ég er ömurlegur.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Hæ krakkar

Sumarfríið mitt frá bloggheimum er búið, og það er kominn tími á að skrifa aftur.

Skólinn er byrjaður, með tilheyrandi lestri, og ég er kominn aftur á fyrsta ár læknisfræðinnar... Mjög gefandi að þurfa að kynnast 50 manna hópi alveg upp á nýtt. Allir eru lokaðir og enginn vill gefa neitt af sér, fólk heldur sig hvert í sínu horni með sínum gömlu skólafélögum.

Þó finn ég að ég á ekki erfitt með að tala við nýtt fólk, þetta er ekkert eins og í fyrra þegar þetta var argasta kvöl, og ég heilsaði varla fólkinu án þess að vera í glasi.

Er ég orðinn svona mikið meira fullorðinn en ég var á sama tíma í fyrra, eða er þetta bara innsýn inn í betra andlegt ástand mitt?
Svo gæti náttúrulega verið að mér finnist ég vera eitthvað merkilegur, fyrst ég er búinn að vera þarna áður, og líti þá pínulítið niður á alla.

Mögulega er þetta út af því að ég er í fyrsta sinn, síðan ég kláraði 1. bekk í Melaskóla, í bekk með fleiri en 2 jafnöldrum, og hef bara verið með komplexa út af því að ég er lítill síðan.

Já, maður spyr sig.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?