mánudagur, febrúar 25, 2008
* Anabólískir sterar eru lyfseðilsskyld lyf og misnotkun á þeim er ólögleg, auk þess sem hún getur kostað fólk í íþróttum keppnis- og æfingaréttindi.
* Þeir sem eru að lyfta eitthvað að ráði og þyngjast við það eru með það stigma á sér að vera meira og minna í sterum, og það er frekar erfitt að bera hönd fyrir höfuð sér með þetta, enda þarf drastískar aðgerðir (dýrar blóðprufur) til að afsanna þær staðhæfingar.
* Að saka einhvern um ólöglegt athæfi án þess að hafa sannanir fyrir því eða að dómur hafi fallið er rógburður.
* Það þykir óskaplega saklaust að segja að hinn eða þessi sé á sterum, en allt það umtal gerir minna úr þeim árangri sem umræddir/ar geta eða gætu náð í áhugamáli/íþrótt/hreyfingu sinni, þar sem auðveldari en jafnframt ólöglega leiðin til að ná markmiðum er að misnota anabolíska stera.
* Það er erfitt að finna góða, "to the point" líkingu en gömul kredda um gyðinga er að ef þeir eru ríkir séu þeir fégráðugir okurlánarar. Ef þessu er haldið fram á opinberum vettvangi er ekki lengi að bíða viðbragða frá þeim, og þau eru jafnan hörð. Þeir geta ekki svarað þessu með einföldu "nei" svari, enda eru þetta aldagamlir, rótgrónir fordómar (sjá Kaupmanninn í Feneyjum e. Shakespeare).
föstudagur, október 26, 2007
Loksins er þessum kaflaskiptum náð. Helsti bóklegi hjallinn er að baki og nú tekur við verknám í læknisfræði. Þetta er það sem ég hef beðið eftir í nokkur ár, tilhugsunin um þetta hefur haldið í manni lífinu í viðurstyggilegum lestrartörnum sem hafa átt sér stað fyrir öll prófatímabil, en hjá okkur eru lokapróf þrisvar á önn út af blokkakerfinu.
Nú fer minn skóli að mestu fram inni á deildum LSH, fyrir utan heimalærdóminn sem vofir yfir um leið og ég flý spítalann klukkan 4 á daginn, alla virka daga.
Þetta er helvíti mikil vinna og púl, en mikið djöfull er gaman á daginn. Loksins sér maður tilganginn í því að grufla í undirstöðuatriðunum... satt að segja kemur það mér á óvart hvað það situr mikið eftir!
Það er ótrúlega góð tilfinning að vera búinn að ljúka þessum áfanga, að það sé eitthvað bitastætt komið í reynslubankann, áþreifanlegur áfangi. Búinn með bóklega hlutann :)
Ég get ekki beðið eftir mánudeginum.
föstudagur, október 12, 2007
Ef það eru einhver lög sem grípa mig öðrum fremur eru það epísk lög. Það myndi sennilega útskýra dálæti mitt á Muse og hrifningu minni á Flaming Lips. Lög sem eru týpísk fyrir þetta form eru t.d. Butterflies & Hurricanes með Muse, Paranoid Android með gleðipoppurunum í Radiohead og Whole Lotta Love með Led Zeppelin.
Þau eru byggð upp á svipaðan hátt og margar góðar kvikmyndir, með hægri en stöðugri uppbyggingu sem maður veit frá byrjun að mun enda í einhverri geðveiki. Þegar maður er farinn að búa sig undir holskefluna er oftar en ekki hægt aðeins á áður en toppnum er náð og allir virðast vera að missa sig í spilagleði og grúvi.
(Hvert í fjandanum er maðurinn að fara með þessum texta?)
Pointið er að það er ekkert að því að fara eftir formúlu, en hún verður
a) að virka, og
b) maður verður að hafa eitthvað í höndunum til að vinna úr.
Til eru kvikmyndir sem hafa hvorugt.
Ef þið viljið halda geðheilsu, sjálfsvirðingu og samfélagslegum status ráðlegg ég ykkur að halda ykkur frá Shoot'em up með öllum tiltækum úrræðum, þetta er mesti fokking viðbjóður sem ég hef séð síðan ég var vélaður til að horfa á Doom.
þriðjudagur, ágúst 14, 2007
Nú er hinn snargeðveiki tími þar sem tossar landsins sameinast í lokastressi yfir upptökuprófum, svona rétt áður en haustönnin byrjar. Þar sem ég hef aldrei verið mikið fyrir skynsamlegar ákvarðanir er ég í hópi tossanna, og ber höfuð bara nokkuð hátt.
Margir sumartossar hafa prýðilegar afsakanir eins og barneignir, veikindi, barnaveikindi, flutninga eða átök í einkalífi. Ég þarf ekki á slíkum hjálpartækjum við að slugsa, ég er fullfær um það sjálfur!
Fyrst ég er byrjaður að sóa tímanum í vefbókarskrif verð ég að skammast yfir þróun í bloggsamfélagi mörlandans.
Horfin eru hin klassísku dagbókarblogg og í stað þeirra komin Moggablogg, sem eru yfirleitt samhengislítið væl um það hvernig heimurinn er að fara til andskotans.
Nennir einhver að lesa það?
Og það sem meira er, nennir einhver að lesa væl um væl um hvernig heimurinn sé að fara norður og niður?
Mér finnst ég vera svo sniðugur.
Gangi ykkur vel í prófunum, samtossar.
þriðjudagur, maí 01, 2007
Vá, hvar á ég að byrja?
Það er orðinn dágóður tími síðan ég skrifaði síðast. Síðan þá hefur eitt og annað gerst, þó mér finnist í raun engar grundvallarbreytingar hafa átt sér stað.
Ég flutti, fór til útlanda, fékk tvo nýja meðleigjendur, féll í prófi, náði öðru, fór til útlanda og hellti mér á kaf í rannsóknarverkefni.
Rannsóknarverkefnið felst í að kanna algengi verkja eftir aðgerðir, og geri það með því að leggja spurningar fyrir fólk stuttu eftir að það hefir lagzt undir hnífinn. Þessi vinna er framkvæmd á LSH Fossvogi (eða Borgarspítalanum), sem er því orðinn mitt annað heimili.
Ég flutti úr íbúðinni á Flyðrugrandanum og í nýtt hús að Einarsnesi, rétt við flugvöllinn, og kann alveg þokkalega við það þó heimilisbragurinn sé ennþá í vinnslu.
Með mér leigja Gunni, kenndur við Skollatungu, og Mundi, sem er bara yfirleitt kenndur.
Útlandaferðin byrjaði í Kanada og endaði á Kúbu, þar sem ég kynntist aðstæðum lítillega, og veit ekki ennþá hvernig ég á að lýsa landinu. Ferðin var hins vegar frábær og mjög eftirminnileg, og ég kom heim aðeins minna hvítur og aðeins meira feitur!
Í sumar tekur við próf, þar sem ég klúðraði lyfjafræðinni; þar fyrir utan verð ég ritari á LSH Fossvogi og gestur á Hróarskeldu.
Í raun liggur mér nákvæmlega ekkert á hjarta sem ég ætla að deila með ykkur, lesendur góðir, svo að þetta verður bara hrein dagbókarfærsla; þurrari en sólskinsdagur í sahara.
Ef það sér einhver þessa færslu verð ég að taka það fram að ég dáist að þér fyrir að þrjóskast við að kíkja hingað á bloggið :)
fimmtudagur, janúar 11, 2007
Gleðilegt nýtt ár, takk fyrir það gamla.
Ég vildi að ég gæti sagst ætla að vera duglegri að blogga, en... ég ætla bara að láta það ráðast.
Góðar stundir.
sunnudagur, ágúst 13, 2006
Oftast tengi ég þó lög við manneskjur, og sú tenging hverfur ekki svo glatt. Dæmi um lög sem ég tengi sterkt við fólk eru Simple Things með Dirty Vegas, Run með Snow Patrol, og Shiver með Coldplay. Það vill líka verða þannig með þessi lög að þau verða svolítið spari hjá mér, og ég spila þau sko ekki á hverjum degi.
Ég verð að viðurkenna að ég tengi lög oftar en ekki við stelpur sem ég hef verið hrifinn af, en það er þó ekki algilt. Þannig minnir Time of your life með Green Day mig á góðan vin norður í landi, og whole lotta love minnir mig á æskuna, þegar ég og gamall félagi sprengdum næstum því rúðurnar heima hjá honum með bassadrununum hjá John Paul Jones.
Þessar minningar tengjast textum eða meiningu laganna ekki neitt, þetta eru bara aðstæður sem límast við tónlist.
föstudagur, júlí 07, 2006
Vinablogg, vol. I
Arnari Steini kynntist ég þegar ég var í leikskóla, og þá vorum við engir vinir. Síðan hættum við að vera óvinir og fljótlega eftir það fórum við að gera allt vitlaust.
Mikið var brallað, og þegar það fór svo að ég ákvað að skipta um bekk, sex ára, sagði ég að ég vildi vera með Arnari í bekk. Mér varð ekki haggað, og ég endaði í bekk með honum, þrátt fyrir að ég væri árinu yngri en hann.
Eftir það urðum við bestu vinir, þannig séð, og afrek okkar hafa verið mörg. Ævintýrin enduðu ósjaldan á borði skólastjórans, og stundum rifumst við líka með hnefunum. Við spjölluðum reyndar lítið eftir að ég flutti á Krókinn, en við tókum aftur upp þráðinn þegar ég flutti aftur á mölina.
Arnar er listamaður í sér, en svolítill sveimhugi. Hann er mikill fagurkeri og spáir mikið í fínni hlutum lífsins, eins og tónlist.
Hann er ekki ennþá búinn að negla niður hvað hann langar til að gera þegar hann er stór, en á meðan nýtur hann lífsins. Hann hefur gríðarlegt keppnisskap, sem er hans mesti kostur og galli í fótboltanum, þar sem hann hefur verið síðan hann var bara strákskratti. Honum finnst ekki leiðinlegt að djamma, og finnst gjarnan á stöðum með góðri tónlist.
sunnudagur, júní 18, 2006
Ég var líka einu sinni (eða tvisvar) kallaður skíthæll. Það var ekki eins gaman.
föstudagur, maí 12, 2006
Þær eru undir nafninu Bar-Inn 131202 á myndasíðunni minni, sem er komin með nýjan hlekk og undirflokk og allt!
Næst koma myndir af læknanemum.
Lifið heil.
þriðjudagur, maí 09, 2006
Hjörtur, fyrrverandi stórbloggari, bað mig um að laga linkana á síðunni minni. Þeir voru náttúrulega ekki skipulagðir og hann var alveg óhuggandi. Þar sem ég er svo mikill öðlingur og mannelskandi ljúfmenni skipulagði ég linkana alveg upp á nýtt, eftir gríðarlega flóknu kerfi. Ég kem til með að laga þá frekar; þegar ég er búinn með a) skilaverkefni, b) viku á heilsugæslu, c) 2 lokapróf.
Ég fokking hata kennslu, verkefnaskil og próf þegar aðrir spóka sig um í sólinni með bjór, búnir í sinni afplánun.
mánudagur, maí 08, 2006
Í samræmi við óskir meirihluta hef ég bætt við myndum frá gömlu árunum af Sauðárkróki; mappan heitir Sveitaball apríl 2003, og innihald ætti að segja sig sjálft.
Hefurðu eitthvað sem þú vilt koma á framfæri um þessar myndir? Láttu það flakka í kommentakerfinu hérna, til þess er það!
Hefurðu eitthvað annað sem þú vilt minnast á, segja eða koma á framfæri? Kommentakerfið virkar líka fyrir svoleiðis kúnstir!
Kveð í bili, njótið myndanna og sumarsins.
þriðjudagur, maí 02, 2006
Það er skoðanakönnun á kommentaformi: Hvernig myndir vilt þú fá að sjá inni á nýju fínu myndasíðunni minni?
Gamlar myndir
Fjölskyldumyndir
Vina- og djammmyndir af króknum
Myndir af læknanemum
Náttúrulífs- og dýramyndir....
State your opinion!
laugardagur, apríl 29, 2006
Myndir hafa bæst við á myndasíðuna mína, hún er neðst í hlekkjunum.
Lifið heil og sofið rótt.
fimmtudagur, apríl 27, 2006
Aðalástæðan fyrir þessum pistli er að ég er kominn með leið á pistlinum sem er hér fyrir neðan. Ég gæti alveg líka eytt honum, en þá væri ég að ritskoða mig í fyrsta skipti hérna á síðunni (stafsetningarvillur eru undanskildar því) og það fíla ég ekki.
Því hef ég ákveðið að skrifa um eitthvað annað, eins og hvað ég ætla að gera í sumar.
Ég fékk stöðu hjá Blóðbankanum í sumar, og ég er mjög ánægður með það. Ég verð meðal annars að vinna við blóðtöku, viðtöl, flokkun og frágang, en ég verð að viðurkenna að blóðtakan virðist vera dýrmætasta reynslan.
Þetta er svosem ekki vel borgað, þetta er eins og umönnun á aðeins hærri taxta, en ekkert vaktaálag.
En af hverju er ekkert vaktaálag?
Svarið við því er að ég er ekki að vinna neitt um helgar í sumar, og það er bara frábært að prófa það svona einu sinni, á meðan maður getur.
Húrra fyrir því.