<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, desember 13, 2005

Eins flott og það væri að enda blogg á afmæli þess þá held ég að ég haldi áfram, þó ekki væri nema vegna þess að það væri aumt að hætta í skrifheiminum á nákvæmlega sama stað og maður byrjaði; með allt niður um sig í skólanum, ekkert búinn að pæla í jólunum, fátækur og single.

Nema hvað, nú er ég búinn að taka þátt í skemmtilegum leik á síðunni hans Fjölnis. Og ég lofaði að ég myndi taka upp þráðinn þar sem hann var skilinn eftir, og hérna kemur hann.

Ef þú skrifar nafnið þitt á svarakerfið mitt (komment fyrir íslenskuníðinga eins og mig) mun ég veita eftirfarandi upplýsingar eftir getu og hentugleika.

1: Handahófskennd staðreynd um þig.
2: Ég nefni einhverja mynd eða lag sem minnir mig á þig.
3: Ég segi frá einhverju bragði sem minnir mig á þig (þetta gæti orðið snúið)
4: Ég segi frá því fyrsta sem ég man eftir í sambandi við þig.
5: Ég segi þér hvaða dýr þú minnir mig á.
6: Spurningu verður varpað fram í sambandi við þig.
7: Þér verður sagt hvað þú átt að gera í nánustu framtíð.

mánudagur, desember 05, 2005

Þetta blogg er tveggja ára í dag.

Merkilegt nokk; þá er ég í sömu sporum í dag og þegar ég byrjaði á þessari vitleysu.

föstudagur, desember 02, 2005

Heilinn og hjartað

Í gamla daga trúðu menn því staðfastlega að heilinn sæi um skynsemi og rökhugsun, en hjartað sæi um tilfinningar, ásamt því að dæla blóði.

Nú tel ég mig vera mjög vísindalega þenkjandi strák, upp að því marki að ég gæti kallast efahyggjumaður hvað varðar allt sem ekki er hægt að sanna eða rökstyðja, en samt get ég alveg samsamað mig þessum gömlu fræðum.

Ég er nefnilega afskaplega mikið í því að rífast við sjálfan mig (í hljóði, sem betur fer), og yfirleitt eru það tilfinningar og skynsemi sem rekast á hvort annað. Þegar sú staða kemur upp (allt of oft) er ágætt að geta kennt einhverjum tveimur líffærum um þessi átök.

Eftir á að hyggja hefur heilinn yfirleitt rétt fyrir sér, og þess vegna er pirrandi hvað hjartað hefur mikla stjórn á mér.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?